Fréttir

Góð þátttaka á fyrsta gróðursetningardegi í Loftslagsskógunum

Góð þátttaka var á gróðursetningardegi í hlíðum Úlfarsfells á sunnudag. Um 1.500 trjáplöntur voru gróðursettar í Loftslagsskógum Reykjavíkur, sem er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Skógræktarfélags Reykjavíkur. Með Loftslagsskógunum er ætlunin að kolefnisjafna starfsemi ýmissa sviða og stofnana borgarinnar. Um leið verða til nýir útivistarskógar í borgarlandinu sem veita kærkomin tækifæri til útiveru og draga úr roki.

 

Á gróðursetningardeginum um helgina var starfsmönnum Reykjavíkurborgar og fjölskyldum þeirra boðið að taka þátt í vorgróðursetningu. Rúmlega 200 manns tóku þátt, að stórum hluta fjölskyldur með börnum á ýmsum aldri.

 

Tekið var á móti þátttakendum í rjóðri nærri gróðursetningarsvæðinu. Boðið var upp á ketilkaffi yfir íslensku birkibáli og kakó og djús fyrir krakkana. Starfsmenn félagsins kenndu grundvallaratriði í gróðursetningu trjáa, deildu út plöntum og leiðbeindu svo fólki við gróðursetningar. Afar ánægjulegt var að sjá áhuga og dugnað yngri kynslóðarinnar sem gaf sig á vinnugleðinni á vald, þrátt fyrir hvassviðri og stöku skúr.

 

Margir lýstu áhuga á að taka aftur þátt í gróðursetningum. Þá höfðu nokkrir kennarar í hópnum áhuga að að koma með nemendur sína og gróðursetja.

 

Dagurinn þótti vel heppnaður og stefnir Skógræktarfélag Reykjavíkur á að standa fyrir fleiri gróðursetningadögum í framhaldinu. Stefna félagsins hefur löngum verið að auka þátttöku almennings í skógrækt. Heiðmörk hefur til að mynda að miklu leyti verið ræktuð upp af sjálfboðaliðum, sérstaklega landnemahópum. Slík þátttaka hefur fengið aukið mikilvægi með vaxandi áherslu á umhverfis- og loftslagsmál.

Skógræktarfólk á öllum aldri sýndi bæði dugnað og einbeitingu. Mynd: Hjördís Jónsdóttir.

Gróðurþekjan er víða illa farin í hlíðum Úlfarsfells. Það breytist vonandi á næstu árum. Mynd: Hjördís Jónsdóttir.

Skógur sem bindur kolefni og veitir skjól

 

Samningur um Loftslagsskóga var undirritaður síðasta sumar. Skógræktaráætlunin er til 10 ára og er miðað við að skógurinn þeki að lokum um 150 hektara svæði. Meginmarkmið ræktunar er aukin kolefnisbinding og uppbyggin útivistarskógar. Til þess eru notaðar fjölbreytilegar tegundir trjáplantna og runna. Þá mun aukin trjágróður skapa skjól og draga þannig úr roki.

 

Svæðið er sums staðar illa farið – gróðurþekja rýr eða hlíðin ógróin. Því er unnið að því að styrkja gróðurþekjuna samhliða því sem trjáplöntur eru gróðursettar. Mest stendur til að gróðursetja af stafafuru, ilmbjörk, sitkagreni og alskaösp en einnig talsvert af reyni og elri.

 

Verulegt magn kolefnis mun bindast í skógunum. Reikna má með að á hverjum hektara skóglendis bindist 7 tonn á ári af CO2, að meðaltali næstu 50 árin. Á Íslandi bindur birki oft um þrjú og hálft tonn á hektara, sitkagreni um sjö en ösp getur bundið um 20 tonn af CO2, vaxi trén í frjósömu landi.

Boðið var upp á ketilkaffi, kakó og djús í rjóðri nærri gróðursetningarsvæðinu. Mynd: Hjördís Jónsdóttir.