Fréttir

Gljúfurdalshringurinn -skemmtileg gönguleið í Esju

Hér á síðunni má sjá lýsingar á nokkrum gönguleiðum í Esju og nú kemur ein í viðbót:

g_11_-esja_gldalur

esja_g_11

g_11__ut_langahrygg_esja

Brattgengir borgarbúar sem vilja tilbreytingu frá hinni hefðbundnu gönguleið á Esjuna úr Kollafirði upp á Þverfellshorn –og sömu leið niður aftur,- geta sem best lagt á bílastæðinu austan við Esjuberg og gengið hinn svokallaða Gljúfurdalshring.
Farið er með girðingu og skáhallt upp klettana vestan við Flóðará  og síðan  jafnan halla  á Kerhólakamb (ca  850 m). Þangað er amk eins og hálfs klukkustundar ganga í góðu færi. Fýll, hrafn, sólskríkja og lóa  eru einkennisfuglar á þessum slóðum og láta vel í sér heyra,  en   bakgrunnshljóðin eru umferðarniðurinn frá hringveginum og  skothvellir sem berast neðan frá æfingasvæðinu  á  Álfsnesi.
Það er  rétt að kasta mæðinni á toppnum á Kerhólakambi og fá sér kaffisopa og samloku hjá stóru vörðunni  ofan við hengiflugið og skanna fjallahringinn. Í góðu skyggni má sjá norður á  Langjökul  og  lengra. Fyrir  neðan blasir  Blikdalurinn við,  hann skerst inn í Esjuna  að vestan   og Tindstaðafjall  hinumegin dalsins.
Gengið er austur grýtta  hásléttuna og er þá Gljúfurdalurinn á hægri hönd,  gróinn í botni en skriður  hið efra og nokkur illfær  gljúfur utan til.  Klöngrast niður  Þverfellshorn  að  Steininum  (ca  600 m), þar  sem  algengt er að kasta  kveðju á  móða göngumenn á uppleið frá bílastæðinu við Kollafjörð.
Framundan er ganga sunnan Gljúfurdalsins út Langahrygg (ca  480 m). Það er drjúgur spölur  en undan fæti og best  að fara  alveg fram á brún þar til sést niður á bílastæðið og sveigja þá til hægri og sikksakka  niður bratta, en þó  hættulausa skriðu.
Komið á bílastæðið  og hringnum lokað eftir  fjögurra  til fimm klst göngu.

-Á myndunum hér fyrir ofan sést inn Gljúfurdalinn, uppgönguleiðin og loks út Langahrygg frá Steininum.

KB