Fréttir

Fræðsluskilti í Heiðmörk endurnýjuð

Nú er lokið endurnýjun 43 fræðsluskilta á um tíu kílómetra löngum fræðsluhring sem liggur frá Elliðavatni upp í hjarta Heiðmerkur. Á skiltunum er fjallað í stuttu máli um gróður, fuglalíf, jarðfræði og mannvistarleyfar í Heiðmörk. Skiltin prýða myndir eftir Brian Pilkington og Eggert Pétursson.

Skiltin voru fyrst sett upp árið 2000 og hafa einu sinni áður verið endurnýjuð. Gömlu skiltin, sem nú hefur verið skipt út voru fræst í eik en þau voru orðin veðruð og ólæsileg. Nú hafa verið útbúin innbrennd álskilti þar sem grafíkin er keyrð út á filmu sem síðan er lýst og framkölluð á álið. Sannað er að þessi gerð prentunnar þolir vel veðrun og sól. Við endurnýjun skiltanna var farið yfir texta og þau endurhönnuð. Fræðsluskiltin eru nú komin á sinn stað, gestum Heiðmerkur til fróðleiks og ánægju.

Skógræktarfélag Reykjavíkur þakkar Veitum og Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu og stuðning við verkefnið.

Jörðin Elliðavatn á sér mjög langa sögu. Mynd af bæjarhúsunum frá árinu 1896 prýðir skilti við garðinn sem enn sést.

Eldri skiltin, sem nú hafa verið endurnýjuð voru fræst í eik en voru orðin ólæsileg.

Heiðlóan á sérstakan stað í hjörtum landsmanna enda oft nefndur vorboðinn ljúfi.

Eldra ólæsilegt skilti um heiðlóuna, það var sannarlega komin tími á endurnýjun skiltanna.

Heiðmörk er vatnsverndarsvæði þar sem ómetanleg vatnsból höfuðborgarsvæðisins er að finna.

Eldri skilti víkja nú fyrir nýjum innbrenndum álskiltum.