Fréttir

Fræddust um timburframleiðslu í Svíþjóð og Danmörku

Tveir starfsmenn félagsins fóru til Danmerkur nú í september og Svíþjóðar í júní, til að fræðast um timburframleiðslu, viðarvinnslu og hvernig nýta má afurðir skógarins á sem bestan hátt.

 

Sævar Hreiðarsson og Gústaf Jarl Viðarsson heimsóttu sögunarmyllur, sölusýningar, timburverkstæði og nytjaskóga; fræddust um aðferðir við umhirðu, timburvinnslu og nýtingu og svo mætti lengi telja. Alls tóku 30 þátt í fyrirlestrum og vinnusmiðjum, þar af 17 frá Íslandi. Auk Sævars og Gústafs Jarls, voru þar starfsmenn annarra skógræktarfélaga, Skógræktarinnar, starfsmenn fyrirtækja og skógarbændur.

 

Myndina hér að ofan tók Gústaf Jarl í Grobund Fabrik á Jótlandi, skammt frá Árósum. Þar eru meðal annars smíðuð einingarhús úr timbri.

 

TreProX er Erasmusverkefni um viðargæði, staðla og aðferðir til að fá sem best timbur úr skógunum. Samtarfsaðilar eru Skógræktin, Landbúnaðarháskóli Íslands, Trjátækniráðgjöf, Kaupmannahafnarháskóli og Linneháskóli í Svíþjóð.

 

Auk námskeiðanna í Danmörk og í Svíþjóð, var námskeið á Íslandi í október 2021. Þá voru haldnir fyrirlestrar og farið í skoðunarferðir, meðal annars um Heiðmörk.