Trjátegund mánaðarins

Evrópulerki (Larix decidua Mill.)

Útbreiðsla

Helstu náttúrulegu útbreiðslusvæði evrópulerkis eru í Alpafjöllum, á láglendi Póllands og í Súdetafjöllum. Tegundinni hefur gjarnan verið skipt upp í undirtegundir sem fylgja þessum útbreiðslusvæðum. Stærsta samfellda útbreiðslusvæðið er í Ölpunum en þar vex lerkið í allt að 2.500 metra hæð yfir sjávarmáli og myndar skógarmörk. Evrópulerki ættað úr Alpafjöllunum barst á 18. öld til Bretlandseyja og fljótlega þaðan til Norðurlandanna. Gegnum kynslóðir í nýjum heimkynnum hefur lerkið aðlagast hafrænu veðurfari og orðið til stofnar með nýja eiginleika sem e.t.v. henta betur fyrir íslenskar aðstæður en upprunaleg kvæmi. Sem dæmi kom fræ frá einum slíkum stofni til Íslands frá Sandvika í Noregi á árabilinu 1987-1989. Sá stofn hefur gefist þokkalega á Íslandi. Fyrsta lerkið í Sandvika er gróðursett kringum árið 1800 og er talið vera ættað frá Skotlandi. Lerkið í Skotlandi er gróðursett uppúr 1700 og er talið vera ættað að mestu frá Tyrol í Austurríki.

 

Notkun á Íslandi

Mest allt fræ evrópulerkis, sem ræktað hefur verið á Íslandi, er flutt inn frá svæðinu Graubünden í Sviss, aðallega frá stöðum í 1.800-2.000 m. h.y.s. Þó svo að lifun hafi oft verið þokkaleg, þá hefur form trjánna almennt verið afleitt. Skýrist það einkum af reglubundnu haustkali en almennt vex evrópulerki óþarflega lengi inní haustið og nær ekki að byggja upp frostþol í tíma fyrir veturinn. Einnig er algengt að vöxturinn sé bugðóttur og hallar undan ríkjandi vindátt, mögulega vegna þess að árssprotinn trénar seint á haustin og leggst því undan vindi. Einn stærst evrópulerkilundur landsins er í Hallormsstaðaskógi, um 1,5 hektarar að stærð, af kvæminu Lusai í Graubünden í Sviss úr 1.850 m. h.y.s. Hann var gróðursettur 1963 og grisjaður vorið 2009. Við grisjunina voru fjarlægð kræklóttustu trén og eftir standa mörg falleg tré. Með umhirðu og framræktun bestu trjánna má þannig vel hugsa sér að umtalsverðar kynbótaframfarir verði í næstu kynslóðum okkar bestu kvæma.

Vel grisjað evrópulerki í Hallormsstaðaskógi. Mynd: Brynjar Skúlason.

Kvæmarannsóknir

Þrjár kvæmatilraunir hafa verið gerðar með evrópulerki hérlendis. Sú elsta er frá 1967 og samanstendur af kvæmum frá Súdetafjöllum í Tékklandi, Tatrafjöllum í Slóvakíu og úr Ölpunum í Austurríki, hæst úr 1.400 m. h.y.s.. Tilraunin var mæld árið 2002 og þá reyndist lifun almennt mjög léleg eða milli 13-25%. Ekkert kvæmi skaraði marktækt fram úr öðrum í lifun, vexti eða formi og í raun ekki hægt að mæla með neinu þeirra til framræktunar. Á árunum 1996-1998 var síðan gróðursett tilraun á 8 stöðum á landinu sem innihélt alls 39 kvæmi evrópulerkis auk nokkurra kvæma rússalerkis o.fl. lerkitegunda til samanburðar. Tilraunin var mæld haustið 2008 á 4 stöðum sem voru Höfði á Fljótsdalshéraði, Vaglir á Þelamörk í Eyjafirði, Varmidalur á Rangárvöllum og Holtsdalur á Síðu. Aðrir tilraunastaðir höfðu þá verið afskrifaðir vegna affalla. Rússalerki kvæmin sýndu marktækt betri lifun á Höfða og á Vöglum, lifunin var svipuð hjá báðum kvæmahópunum í Varmadal en í Holtsdal var lifunin marktækt betri hjá Evrópulerki kvæmunum. Þarna varð ljóst að líklegt kjörsvæði fyrir evrópulerki á Íslandi er á Suðausturlandi þar sem vaxtartímabilið er langt. Gerð var ný mæling á tilrauninni í Holtsdal haustið 2017. Lifun og form mismunandi kvæma kemur fram á mynd 2 og 3.

 

Lifun í kvæmatilrauninni í Holtsdal, mælt haustið 2017.

Meðalform trjánna (fjöldi stofna og hlykkja) í kvæmatilrauninni í Holtsdal, mælt haustið 2017.

Myndirnar sýna glöggt að alpakvæmin eru almennt með betri lifun en t.d. kvæmin frá Póllandi, Tékklandi og Rúmeníu. Kvæmi frá Frakklandi og Ítalíu voru með úrvalsgóða lifun þrátt fyrir að almennt væri form trjánna afleitt. Við ræktun evrópulerkis til timburnytja má fullyrða að form trjánna er helsta vandamálið. Fyrri myndin sýnir að 4 kvæmi skera sig úr með fæsta stofna/hlykki. Þrjú þessara kvæma eru úr mikilli hæð í Sviss og það fjórða er frá Sandvika í Noregi.

Þriðja kvæmatilraunin samanstendur af 7 Alpakvæmum úr mikilli h.y.s. og var gróðursett árið 2010 á Tumastaði, Mosfell og Þjórsárdal. Tilraunin var mæld sumarið 2022. Sem fyrr er vaxtarform og lifun aðeins breytileg milli kvæma en inn á milli má finna beinvaxna og hraustlega einstaklinga sem gætu orðið að kynbótatrjám framtíðarinnar.

 

Framtíðarhorfur

Með hækkandi meðalhita og lengri vaxtartíma á Íslandi má leiða líkum að því að heppilegt ræktunarsvæði fyrir evrópulerki muni fara stækkandi á komandi árum. Svo virðist sem besti efniviðurinn af evrópulerki til notkunar hérlendis sé úr 1.800-2.100 m. h.y.s. úr svissnesku Ölpunum. Mikill breytileiki er þó innan kvæma svo líklegt er að með úrvali og kynbótum úr þessum efnivið megi bæta árangur umtalsvert strax í fyrstu kynslóð. Einnig er vert að skoða úrvals einstaklinga frá stofnum sem hafa verið framræktaðir við hafrænar aðstæður og þróast í átt að íslensku loftslagi eins og t.d. kvæmi frá Tyrol sem hefur farið í gegnum náttúruúrval fyrst í Skotlandi, næst í Sandvika í Noregi og loks á Íslandi.

 

Ekkert kvæmi getur talist fullnægjandi gott til timburskógræktar á Íslandi og því er unnið að kynbótum á evrópulerki. Þetta er gert með því að taka greinar af bestu einstaklingum bestu kvæma og græða á grunnstofn. Nú þegar er búið að gróðursetja um 100 tré af um 40 völdum klónum á Tumastöðum sem verða frægarður fyrir framtíðarræktun evrópulerkis. Uppistaðan í frægarðinum eru valdir klónar af Svissnesku kvæmunum Törbel, Celeriana og Bosco-Gurin auk Sandvika frá Noregi. Til viðbótar eru síðan nokkrir klónar af Graubündin uppruna sem hafa verið valdir hér og þar á landinu. Kynbætt evrópulerki mun eflaust nýtast beint í skógrækt í framtíðinni. Gott erfðaefni af evrópulerki er líka mikilvægt í blendingsræktun við úrvals rússalerki, eins og gert er í dag með góðum árangri við frærækt yrkisins Hryms.

 

Nánari upplýsingar um evrópulerki má t.a.m. finna í grein Þrastar Eysteinssonar og Þórarins Benediktz, í Skógræktarritinu, öðru tölublaði ársins 2009.

 

Brynjar Skúlason, sérfræðingur í skógerfðafræðum og trjákynbótum hjá Skógræktinni.

 

Yfirlitsmynd af nýstofnuðum evrópulerki frægarði á Tumastöðum á skjólgóðum stað. Frægarðurinn er á neðst, fyrir miðju, þar sem hjólför eru og litlar plöntur að byrja að vaxa upp. Mynd: Hrafn Óskarsson.

Grunnstofn ágræddur með sprota frá úrvalstré evrópulerkis, nýgróðursettur í frægarð á Tumastöðum. Mynd: Hrafn Óskarsson.