Fréttir

Esjuhátið – vígsla Esjugerðis

Skógræktarfélag Reykjavíkur efnir til Esjuhátíðar á uppstigningardag, fimmtudaginn 26. maí kl. 14-17. Tilefnið er vígsla Esjugerðis sem er æfingagerði sem komið hefur verið upp við Esjurætur. Gerðið er samstarfsverkefni Skógræktarfélagsins og Fjallakofans sem kostar verkefnið. Í tilefni dagsins er boðið upp á gönguferðir um Esjurætur, upplýsingargjöf um útivistarmöguleika í Esju og kynningu og vígslu á glæsilegu nýju æfingagerði. Sjá Facebook viðburð hér – Allir velkomnir!

Dagskrá:

Kl. 14  Gönguferð – Gengið frá Esjustofu fjölbreytta leið um Esjurætur þar sem farið er um þéttan skóg og opin svæði. Leiðin er um 5 km og tekur gangan um 2 klst. Auður Kjartansdóttir, framkvæmdarstjóri Skógræktarfélagsins leiðir gönguna.

Kl. 15  Fjölskylduganga – Gengið frá Esjustofu stutta og þægilega leið þar sem farið er um þéttan skóg og opin svæði. Gangan hentar allri fjölskyldunni, leiðin er um 1 km og tekur gangan hálfa klukkustund. Það er Margrét Valdimarsdóttir, starfsmaður Skógræktarfélagsins sem leiðir gönguna.

Kl. 14 -16 Upplýsingagjöf – Jón Haukur Steingrímsson ráðgjafi Skógræktarfélagsins við uppbyggingu stígakerfis í Esju veitir upplýsingar um göngu- og hjólaleiðir við upplýsingaskiltið við Esjustofu.

Kl. 16  Vígsla Esjugerðis – Æfingagerði Skógræktarfélags Reykjavíkur og Fjallakofans formlega vígt með pompi og prakt!

 

Undanfarin ár hefur verið unnið skipulega að því að útvíkka útivistarsvæðið í Esjunni til að dreifa álagi og mæta þörfum ólíkra hópa. Stígakerfi svæðisins hefur verið stækkað en gönguleiðir, hjólaleiðir og aðkomuleiðir í Esjuhlíðum eru nú samtals um 23 kílómetrar á lengd. Lagður hefur verið stígur frá Esjustofu við Mógilsá að nýju bílastæði við Kollafjarðará, neðan Gunnlaugsskarðs sem gengur undir nafninu Tengileiðin. Leiðin liggur um þéttan skóg og opin svæði með fallegum útsýnisstöðum og er því afar fjölbreytt. Frá bílastæði við Kollafjarðará liggur gönguleið upp Kúpuhrygg meðfram ánni sem síðan er skemmtilegt að ganga til vesturs að Steini en þannig fæst um 10 km hringur í Esjuhlíðum. Einnig eru sérstakar fjallahjólaleiðir þar sem hjólreiðafólk getur stundað brekkubrun og notið hafa mikilla vinsælda. Nýtt, hnitmerkt kort hefur verið útbúið af útivistarsvæðinu (sjá hér).

Gönguleiðir í Esjuhlíðum henta fjölbreyttum hópi fólks. Aðstaða hefur verið stórbætt  á undanförnum árum, Reykjavíkurborg hefur reist vegleg salerni og hægt er að komast á staðinn með strætó. Velkomin á Esjuhátið!

Allur viður í æfingagerðinu kemur úr Heiðmörk. Unnt er að takast á við ýmsar áskoranir í þeim æfingatækjum sem þar eru staðsett.

Ómar Ingþórsson landslagsarkitekt á heiðurinn af hönnun æfingagerðisins sem er einkar vel heppnuð.