Esjufréttir

Betra aðgengi og fjölbreyttari útivist í Esjuhlíðum

Nýr stígur í Esjuhlíðum veitir aðgang að stærra og fjölbreyttara útivistarsvæði en áður. Stígurinn liggur þvert á neðri hlíðar Esjunnar og auðveldar aðgengi meðal annars að þroskuðum og hávöxnum skógi, trjásafni Skógræktarinnar, útsýnisstöðum, sérstökum hjólaleiðum og stikaðri gönguleið að Gunnlaugsskarði sem er talsvert ólík öðrum gönguleiðum á svæðinu.

Lagning stígarins, sem er tæpir tveir kílómetrar á lengd, hefur staðið yfir í sumar og haust – frá júlí og fram í október. Stígurinn liggur frá aðalbílastæðinu við Mógilsá að nýlegu bílastæði við Kollafjarðará, þar sem markvisst hefur verið unnið að uppbyggingu útivistarleiða undanfarin ár – bæði gönguleið og fjallahjólaleiðir.

Stígurinn er fyrir blandaða umferð – bæði gangandi fólk og hjólandi. Lagður var um 1,1 kílómetra langur nýr stígur frá bílastæðinu við Kollafjörð að skóginum ofan við aðstöðu Skógræktarinnar á Mógilsá. Þá var eldri stígur endurbyggður, sem liggur frá Esjustofu áleiðis inn í skóginn. Eldri stígurinn var víða í mjög slæmu ástandi, ófær á köflum og jafnvel hættulegur yfirferðar.

Framkvæmdir voru á köflum nokkuð erfiðar í skóginum ofan við Mógilsá vegna hliðarhalla og þrengsla, leiðin er fær öllu göngufólki. Brekkan upp úr skóginum til austurs er þó nokkuð brött. Eftir er að endurbyggja um 350 metra langan kafla í skóginum, ljúka merkingum og gerð upplýsingaskilta. Vonandi verður hægt að halda áfram með verkefnið á næsta ári.

Nýi stígurinn liggur um skóglendi, mela og mýrar. Þar sem mýrar eru þveraðar, voru byggðar flotbrýr til að hreyfing jarðvatns truflist ekki og gróður geti vaxið upp í kringum brýrnar. Byggðar voru brýr á Hvítá, Grundarlæk en önnur vatnsföll voru þveruð með ræsum eða göngubrúm. Allt timbur í verkefnið var unnið úr íslensku sitkagreni úr Heiðmörk og Mógilsárskógi.

Stígurinn er að stórum hluta lagður fyrir styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, sem fékkst við aukaúthlutun í vor. Sú fjárveiting var hluti af tímabundnu fjárfestingarátaki stjórnvalda vegna Covid-19 faraldursins. Því má geta þess að 2-3 starfsmenn í verkinu voru áður atvinnulausir starfsmenn úr ferðaþjónustunni. Skógræktarfélag Reykjavíkur bar einnig stóran hluta af kostnaðinum við framkvæmdirnar. Styrkvegasjóður veitti styrk til lagfæringa á veginum að Kollafjarðará.

Nýja tengileiðin er til hægri á myndinni en hefðbundinn gönguleið upp að Steini er til vinstri. Mynd: Jón Haukur Steingrímsson.

Nýjir stígar lagðir í Esjuhlíðum 2020. Mynd: Jón Haukur Steingrímsson.

Ný gönguskíðaleið í Heiðmörk

Skógræktarfélagið vinnur víðar að því að leggja stíga og bæta aðgengi að útivistarsvæðum. Í Heiðmörk er unnið að nýrri gönguskíðaleið frá Elliðavatnsbæ að núverandi gönguskíðahring, Hjallahringnum. Leiðin verður um 2,4 kílómetra löng.

Sjálfboðaliðar frá Skíðagöngufélaginu Ulli við gerð nýju gönguskíðabrautarinnar. Mynd: Ullur.