Fréttir

Aukablað DV í dag – grein um Jólaskóginn og Jólamarkaðinn

Einstök upplifun síðustu helgina fyrir jól – Jólamarkaðurinn og jólaskógurinn

Sú fallega og skemmtilega hefð hefur færst í vöxt undanfarin ár að fólk höggvi sín eigin jólatré hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur.

Jólaskógurinn er að þessu sinni á Hólmsheiði. Þangað streymir fólk nú fyrir jólin og heggur sér jólatré, oft hjón með börn en stundum líka heilu stórfjölskyldurnar. Skógarhöggið nær hámarki um næstu helgi, síðustu helgina fyrir jól, en jólaskógurinn á Hólmsheiði verður þá opinn laugardag og sunnudag
frá kl. 11 til 16. Fólk fær lánaða sög og eftir að fjölskyldan hefur fundið tré og sameinast í að fella það og draga það aftur niður í dalinn er því pakkað inn í net. Heitt kakó er í boði og svo kíkir jólasveinninn í heimsókn.

Jólatréin sem höggvin eru í skóginum eru á breiðu verðbili eftir stærð og tegund, frá 5.000 kr upp í 13.000. Nákvæma verðskrá er að vinna vefsslóðinni heidmork.is/jolaskogur/

Einstök tré
Í skóginum er að finna alls konar tré. Hefðbundin grenitré, furu – og líka Einstök tré. Góðhjörtuðum gestum
býðst þar að fella jólatrén sem enginn vildi. Einstöku jólatrén eru, rétt eins og mannfólkið, alls konar í
laginu: Sum eru lítil og breið, önnur sveigjast til hliðar eða eru jafnvel vaxin eins og litlir runnar. Þau eru falleg eins og hin trén en líta allt öðruvísi út. Einstöku trén hafa sterkan karakter – kannski eins og fjölskyldan sem hefur þau heima í stofu á aðfangadagskvöld. Fyrir hvert einasta tré sem er fellt í jólaskóginum eru gróðursett að minnsta kosti 30 tré. Fátt stuðlar því betur að aukinni skógrækt en að fella sitt eigið jólatré í jólaskóginum.

Jólamarkaðurinn við Elliðavatn

Jólamarkaður Skógræktarfélagsins við Elliðavatn hefur átt sívaxandi vinsældum að fagna en hann er nú
haldinn fimmta árið í röð. Á markaðnum er hægt að kaupa jólatré og ýmsan annan jólavarning, auk þess
að njóta veitinga og jólastemningar í stórkostlegu umhverfi. Uppákomur listamanna setja einnig sterkan svip á jólamarkaðinn. Markaðurinn verður opinn frá kl. 11 til 16 næsta laugardag og sunnudag.

Á sunnudeginum les Lóa Hjálmtýsdóttir rithöfundur upp á kaffistofunni kl. 13 og barnastund verður í
rjóðrinu kl. 14. Á sunnudaginn syngur Mótettukórinn á hlaðinu kl. 12, Kristín Svava rithöfundur les upp
kl.13 og Ævar vísindamaður verður með barnastund kl.14. Tónlistarmaðurinn Snorri Helgason leikur
síðan og syngur fyrir gesti kl.15.

Frétt úr kynningarblaði DV um Jólatré þann 15.desember.