Fréttir

Ársskýrslan 2019 komin út

Ársskýrsla Skógræktarfélags Reykjavíkur fyrir árið 2019 er komin út. Hún er aðgengileg hér á heidmork.is, líkt og skýrslur síðustu ára.

Í ársskýrslunni má fræðast um starfið á síðasta ári. Má þar nefna vinnu við að bæta aðgengi og auka útivistarmöguleika í Esjuhlíðum; framkvæmdir á Múlastöðum, jörð í eigu félagsins; og endurskipulagningu stígakerfisins í Heiðmörk. Þá er fjallað í máli og myndum um fasta liði í starfi félagins, svo eins og Jólamarkaðinn og Skógarleikana.

Loftslagsmál fá sífellt meira vægi hvarvetna í samfélaginu. Þar vill Skógræktarfélagið ekki láta sitt eftir liggja. Því er sérstakt fagnaðarefni að tillaga um Loftslagsskóga var samþykkt í umhverfis- og heilbrigðisráði Reykjavíkur á síðasta ári.

Sú ánægjulega þróun hefur orðið síðustu ár að félagsmönnum hefur fjölgað jafnt og þétt. Í lok síðasta árs voru 1.880 félagar í Skógræktarfélagi Reykjavíkur – ríflega átta hundruð fleiri en fimm árum fyrr.

Aðalfundi Skógræktarfélags Reykjavíkur var frestað vegna samkomubannsins sem verið hefur í gildi. Fundurinn átti að vera í apríl en hefur verið frestað fram á haust.