Fréttir

Aðalfundur hvetur til aukinna varna gegn gróðureldum

Aðalfundur Skógræktarfélags Reykjavíkur var haldinn í gær, 6. maí. Tveir stjórnarmenn, Páll Þórhallsson og Þorsteinn Tómasson, endurnýjuðu umboð sitt og er stjórn félagsins óbreytt. Jóhannes Benediktsson, formaður félagsins, fór í ræðu sinni yfir störf félagsins á síðasta ári og var góður rómur gerður að máli hans.

Farið var yfir reikninga félagsins og ársskýrsla Skógræktarfélags Reykjavíkur 2020 kynnt. Ársskýrslan er aðgengileg hér.

Aðalfundurinn ályktaði um varnir og viðbrögð við gróðurelda. Mikill gróðureldur olli skemmdum á um 61 hektara svæði í Heiðmörk þriðjudaginn 4. maí. Ályktun fundarins, sem samþykkt var samhljóða, er eftirfarandi:

Aðalfundur Skógræktarfélags Reykjavíkur beinir því til Almannavarna að þegar í stað verði starfshópi falið að gera tillögur til  varnar og viðbragða vegna gróðurelda. Þessi vá er tiltölulega ný hér landi, þegar kaflar með þurru og sólríku veðri ganga yfir síðla vetrar eða að vorlagi. Tjón Heiðmerkur og Skógræktarfélags Reykjavíkur er mikið þegar 61 ha lands brann 4. maí  sl. og heppni með vind og vindátt  að ekki fór enn verr, þrátt fyrir vasklega framgöngu fjölda manna við að hemja eldinn og slökkva í glæðum. Ljóst er að þessi vá fer vaxandi og brýnt að bæta skipulag og meðvitund samfélagsins alls svo koma megi í veg fyrir óþarfa skaða vegna vanhugsunar eða gáleysi með eld.

Á aðalfundinum var einnig samþykkt að hækka árgjald í félaginu í 4.000 krónur. Árgjaldið hefur verið óbreytt í fjölda ára og er þetta eðlileg vísitöluhækkun. Í ár eru í síðasta skipti send út félagsskírteini á pappír. Framvegis verða þau rafræn og send til félagsmanna með tölvupósti frá [email protected]. Berist skilríkin ekki, eru félagsmenn beðnir um að hafa samband á [email protected] og tilgreina rétt netfang. Rafrænu skírteinin verða send til félagsmanna eftir að árgjald hefur verið greitt í heimabanka.
Í lok fundar var frumsýnt myndband sem gert var um starf félagsins, í tilefni þess að 120 ár eru liðin frá stofnun Skógræktarfélags Reykjavíkur. Hægt er að horfa á myndbandið á forsíðu heidmork.is eða á Youtube-rás Skógræktarfélags Reykjavíkur.