Skógræktarfélag Reykjavíkur er sjálfstætt starfandi áhugamannafélag sem vinnur að skógrækt, trjárækt og uppbyggingu útivistarsvæða í nágrenni höfuðborgarinnar. Félagið stendur fyrir margskonar fræðslustarfi og viðburðum, styður skógarmenningu og tekur þátt í rannsóknum og nýsköpun.
Skógræktarfélag Reykjavíkur var upphaflega stofnað árið 1901 til að rækta upp skóglendi og útivistarsvæði í nágrenni höfuðborgarinnar. Frá árinu 1950 hefur félagið haft umsjón með friðlandinu í Heiðmörk og frá aldamótum útivistarsvæðinu í Esjuhlíðum. Félagið hefur lagt áherslu á að byggja upp stígakerfi og aðra innviði til útivistar til að mæta þörfum ólíkra hópa. Félagið vinnur einnig að skógrækt á Reynivöllum í Kjós, á Múlastöðum í Flókadal í Borgarbyggð og í Fellsmörk í Mýrdal.
Meðal annarra verkefna félagsins má nefna Jólamarkaðinn í Heiðmörk og Jólaskóginn á Hólmsheiði, þátttökugróðursetningar, Heiðmerkurhlaupið, móttöku húsasmíðanema og grunnskólabarna, þróun viðarvinnslu og samstarf við ýmsa aðila, allt frá átthagafélögum til sendiráða, trúfélaga og listafólks. Á síðustu árum hefur félagið lagt vaxandi áherslu á umhverfis- og loftslagsmál, með nýjungum í skógræktarstarfi, stuðningi við rannsóknir og fræðslu. Í Heiðmörk er unnið að uppbyggingu viðarvinnslu, til að auka og bæta sjálfbæra nýtingu á íslensku timbri.
Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur um áratuga skeið átt í góðu samstarfi við Reykjavíkurborg um ræktun í borgarlandinu, nú síðast í Loftslagsskógunum í Úlfarsfelli. Á síðustu árum hefur félagið átt í vaxandi samstarfi við Garðabæ. Einnig hefur félagið lagt ríka áherslu á að virkja einstaklinga, fyrirtæki og félagasamtök til þátttöku í skógrækt og landbótum. Þetta samstarf hefur verið gjöfult. Heiðmörk hefur til dæmis að miklu leyti verið ræktuð upp af landnemahópum. Þá hafa fyrirtæki og félagasamtök lagt mikið af mörkum til starfs félagsins, meðal annars til byggja upp innviði til útivistar í skóglendinu.
Skógræktarfélag Reykjavíkur er í Skógræktarfélagi Íslands, ásamt um 60 öðrum skógræktarfélögum. Skrifstofur Skógræktarfélags Reykjavíkur eru í Elliðavatnsbænum í Heiðmörk.
Ársskýrslu síðasta árs má nálgast hér.
Sögu félagsins er hægt að fræðast um hér.