Skógræktarfélag Reykjavíkur rekur sögu sína allt aftur til upphafs tuttugustu aldar, þegar byrjað var að huga að friðun og ræktun skóga á Íslandi. Skógar voru þá fáir og illa farnir á Íslandi. Danski skógfræðingurinn Christian Flensborg, sem starfaði að skógrækt á vegum íslenskra stjórnvalda, taldi að íslenskir skógar hefðu að mestu verið eyðilagðir. Ef ekkert yrði að gert, myndu þær litlu leifar sem eftir væru hverfa innan fáeinna ára. Flensborg kenndi um miskunnarlausu skógarhöggi auk þess sem búfé væri beitt á nýgræðinginn.

Frumkvöðlastarf við Rauðavatn

Skógræktarfélag Reykjavíkur var fyrst stofnað sem hlutafélag árið 1901. Meðal stofnenda félagsins voru Knud Zimsen, verkfræðingur og síðar borgarstjóri, Þórhallur Bjarnarson, alþingismaður og síðar biskup, og Steingrímur Thorsteinsson skáld, sem varð fyrsti formaður félagsins. Um áttatíu hluthafar lögðu til fé sem var varið í að kaupa rúma sex hektara lands við Rauðavatn, girða það og hefja gróðursetningu.

Flensborg vann að skógrækt á Íslandi yfir sumarmánuðina og stýrði hann meðal annars framkvæmdum við Rauðavatn. Flensborg taldi að þar væri tilvalinn staður fyrir lystigarð í framtíðinni – stutt frá höfuðborginni, við lítið vatn og með fagurt útsýni yfir Rauðhóla. Skógræktarmenn girtu landið fyrir búsmala og grófu 8.600 holur, árið 1902.

Sumarið eftir voru gróðursett um 8.000 reynitré og nokkur hundruð lindifurur, fjallafurur og hvítgreni. Plönturnar hafði Flensborg tekið með sér þegar hann kom til Íslands frá Danmörku um vorið. Þá var lúpínu sáð á svæðinu í tilraunaskyni.

Innan skógræktargirðingarinnar kom Flensborg einnig upp græðireit. Í hann var sáð fræjum af ýmsum tegundum, einkum grenitrjám, svo hægt yrði að rækta upp trjáplöntur á staðnum. Á þessum árum vissu menn lítið um hvaða trjátegundir gætu þrifist á Íslandi, aðrar en innlendar tegundir – birki og reynir. Þá var mikill hörgull á fræi og trjáplöntum. Hvort tveggja var gjarna flutt inn frá Danmörku eða Noregi, með misjöfnum árangri. Græðireiturinn gerði það líka að verkum að hægt var að bjóða fólki trjáplöntur og runna til gróðursetningar – hvort sem var við sveitabæi eða í görðum í þéttbýli.

Flensborg lét af störfum árið 1906. Arftaki hans, A. F. Kofoed-Hansen, var hins vegar ekki bjartsýnn á árangur við Rauðavatn. Eina tegundin sem þar virtist þrífast, væri fjallafura. Aðrar frysu niður ár hvert og ekki útlit fyrir að þær myndu braggast.

Fjallafurur í Rauðavatnsskógi. Skjólbelti sitkagrenitrjáa meðfram Suðurlandsvegi sést í fjarska. Mynd: Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir.

Áfram var þó unnið að gróðursetningu við Rauðavatn til ársins 1914 en eftir það lá starf félagsins að mestu niðri, nema hvað eitthvað var hugað að skógræktargirðingunni.

Borgarbúar kvörtuðu yfir þessu sinnuleysi. Í Morgunblaðinu mátti lesa þessa orðsendingu frá “B.B.”, árið 1918.

„Skógræktarfélag Reykjavíkur eða stjórn þess, vildi ég mega minna á það, að gera þarf við girðinguna um skógreitinn við Rauðavatn. Hún er í því ástandi, að fénaður gengur þar inn og út. Hafa piltar mínir í vor oft rekið úr henni fé (Reykvíkinga), og eitt sinn geitahóp (frá Elliðavatni), en sá fénaður er óhollur vinur skógarnýgræðings.“

Hvað skýrir lágdeyðuna í starfi Skógræktarfélags Reykjavíkur? Ef til vill urðu menn fyrir vonbrigðum með hvað trjáplönturnar uxu hægt. Líklegra verður þó að teljast að ytri aðstæðum sé um að kenna. Fyrri heimsstyrjöldin hófst 1914 og með henni efnahagskreppan 1914-1918, sem var versta kreppa á Íslandi á tuttugustu öldinni, eins og Guðmundur Jónsson sagnfræðiprófessor hefur fjallað um í Sögu. Verg landsframleiðsla dróst saman um nær 18%. Verslun og siglingar voru takmarkaðar, óðaverðbolga og skortur á mörgum innfluttum matvörum og vörum sem voru nauðsynlegar fyrir sjávarútveg. Haglægðin varaði allt fram til 1923.

Ekki voru heldur allir sannfærðir um að tré gætu yfir höfuð vaxið og dafnað á suðvesturhorni Íslands. Sumir bentu á fjallafururnar við Rauðavatn, sem alltaf væru jafn lágvaxnar og kyrkingslegar. Enginn virtist heldur sinna þeim. Kofoed-Hansen sagði sumarið 1925 að Skógræktarfélag Reykjavíkur væri „ekki orðið nema svipur hjá fyrri sjón.“ Sá eini sem veitti því athygli væri formaður félagsins – Knud Zimsen, borgarstjóri Reykjavíkur. Í Morgunblaðinu 1919 mátti lesa þá skoðun að ekkert vit væri í öðru en að malbika yfir Austurvöll frekar en að reyna að útbúa þar skrautgarð.

„Vér höfum margoft bent á það, að það er fengin full reynsla fyrir því, að tré þroskast eigi vel hér á Suðurlandi. (…) Tré geta ekki vaxið hér svo þau verði til nokkurrar verulegrar prýði í skrautgarði.“

„Klæðum landið á ný“ stofnun Skógræktarfélags Íslands

Á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar fjölgaði fólki afar ört í Reykjavík og nágrenni. Húsnæði var víða lélegt og af skornum skammti og borgarbúar sóttu í að komast út í náttúruna – „á gras“ eins og bóndi nokkur orðaði það í Morgunblaðinu árið 1925.

Morgunblaðið gekkst til að mynda fyrir ferð að Rauðavatnsstöðinni á bifreiðum frá Vörubílastöð Reykjavíkur, í ágúst 1925. Nokkru síðar er sagt frá ferð barna úr Vorskóla Ísaks Jónssonar að Rauðavatni. Og í Rauðhólum fékk fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík landskika þar sem útivistastaður alþýðunnar var vígður 1934. Sumarliði Ísleifsson sagnfræðingur rekur þetta í bók sinni Saga ASÍ: Í samtök.

„Svo var þar mikil skemmtun í ágúst sama sumar [1934] og var þá búið að koma upp danspalli „í botni dýpstu gjótunnar“, eins og það var orðað, og var dansað þar fram á nótt. Árið eftir var komið upp veitingaskála á svæðinu og var verkafólk hvatt til að nýta sér aðstöðuna (…) Rauðhólar voru nýttir sem samkomustaður um árabil og sóttu þangað þúsundir manna þegar flest var en hætt var að nýta staðinn fljótlega eftir síðari heimsstyrjöldina.“


Eftir að hætt var að nýta skikann í Rauðhólum og veitingaskálann fyrir samkomur, var rekið þar sumardvalarheimili fyrir börn alþýðufólks á vegum Vorboðans. Þessi bátur hefur líklega verið notaður sem leiktæki. Mynd: Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir.

Allt var þetta forspilið að því sem síðar varð: Friðland Reykvíkinga við Elliðavatn – Heiðmörk.

Þótt starf Skógræktarfélags Reykjavíkur hafi að mestu legið niðri á þriðja áratugnum, fór fólk að taka eftir því í lok hans að trjáplönturnar í Rauðavatnsskógi voru farnar að taka við sér. Árið 1929 skrifar S. Sigurðsson í Vísi um plönturnar. Þær hafi átt svo erfitt uppdráttar fyrstu árin en hafi nú lagað sig að erfiðum aðstæðum og byrjað að vaxa. „Þetta eru þau merkilegustu fyrirbrigði, er orðið hafa í íslenskri trjárækt.“

Árið 1930 var Skógræktarfélag Íslands formlega stofnað, á Alþingishátíðinni á Þingvöllum. Tilefni Alþingishátíðarinnar var að 1000 ár væru frá stofnun Alþingis, 930, og minntust skógræktarmenn um leið orða Ara fróða þess efnis að er Ísland byggðist, hafi það verið viði vaxið milli fjalls og fjöru. Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri var einn þeirra, og harmaði í ræðu sinni að „Landið er að miklu nakið og bert. Stór svæði sem áður voru skógi vaxin og hinar blómlegustu sveitir, eru nú auðn ein.“ Hann eggjaði viðstadda: „Grátum því eigi hvarf skóganna, en klæðum landið á ný“.

Hið nýstofnaða Skógræktarfélag Íslands tók nú við Rauðavatnsstöðinni af hlutafélaginu Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Og frá Reykjavíkurborg fékk félagið land í Fossvogi þar sem komið var upp gróðrarstöð. Fossvogsstöðin varð lykilþáttur í starfi félagsins um langt skeið og er fjallað um hana í sérkafla hér að neðan.

Starfsemi Skógræktarfélag Íslands var tvíþætt fyrstu árin. Annars vegar var félagið landssamband skógræktarfélaga, svo sem Skógræktarfélags Eyfirðinga og Skógræktarfélags Skagfirðinga. Sem slíkt beitti félagið sér fyrir friðun Bæjarstaðaskógar, gaf út tímarit og reyndi að vekja áhuga fólks á skógrækt. En félagið var líka héraðsfélag Reykjavíkur og nágrennis. Skógræktarstarf félagsins var mest allt á eða nærri höfuðborgarsvæðinu, til að mynda „í Fossvogi, á Þingvöllum, í gömlu skógræktarstöðinni við Rauðavatn, í Þrastaskógi, á Laugarvatni, í Vífilsstaðalandi og í Undirhlíðum sunnan við Hafnarfjörð“.

Árið 1946 voru gerðar skipulagsbreytingar á Skógræktarfélaginu. Með breytingunum varð Skógræktarfélag Íslands eingöngu sambandsfélag, með héraðsfélögin sem aðildarfélög. Samtímis voru stofnuð tvö félög – Skógræktarfélag Reykjavíkur og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar – til að halda áfram þeim verkefnum sem Skógræktarfélag Íslands hafði haft með höndum í Reykjavík, Hafnarfirði og nágrenni. Samfara skipulagsbreytingunum gengu Rauðavatnsreiturinn og Fossvogsstöðin til Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Starfsemi Skógræktarfélags Reykjavíkur nær því allt aftur til ársins 1901, þegar byrjað var að vinna að skógrækt við Rauðavatn.

Rauðavatnsstöðin var í eigu og umsjón Skógræktarfélags Reykjavíkur allt til ársins 1998. Þá átti félagið í fjárhagserfiðleikum og seldi Reykjavíkurborg Rauðavatnsreitinn.

„Skógi vaxið friðland í nágrenni Reykjavíkur“ – Heiðmörk

Þriðja stóra verkefnið sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hélt áfram með eftir skipulagsbreytinguna, var stofnun nýs friðlands í nágrenni Reykjavíkur. Hugmyndir um einhvers konar friðland eða útivistarskóg á þessu svæði ná allt aftur til ársins 1870* og komu meðal annars fram hjá Flensborg þegar hann hóf skógrækt við Rauðavatnsstöðina 1902.

Fyrstu tillögurnar um að friða landið þar sem Heiðmörk er nú, voru settar fram í Skógræktarritinu árið 1936 af Hákoni Bjarnasyni skógræktarstjóra. Hákon hafði árið áður farið í ferð á hestum upp fyrir Elliðavatn til að kynna sér kjarrleifar þar.

„Þarna er töluvert af kjarri, en ekki er það mjög hávaxið. Sumstaðar var það þó mannhæð og mjög þétt. Að því er séð verður, hefur skógurinn tekið allmiklum framförum á síðustu árum, og mun það aðallega því að þakka, að fjárbeit hefur mikið lagst niður á næstu bæjum. Kjarrið er mjög að breiðast út um hraunið, sem liggur fyrir austan brekurnar, og er aðeins tímaspurning hvenær það verður mestallt skógi vaxið.“

Hákoni þótti fagurt um að litast og taldi að vel færi á því ef hægt væri að friða skógarleifarnar þarna svo að íbúar í Reykjavík og Hafnarfirði gætu „skroppið um helgar í fagurt skóglendi“.

Árið 1938 sendi Skógræktarfélag Íslands bréf til bæjarstjórnar Reykjavíkur og óskaði eftir friðun skógarleifanna. Erindinu var tekið vel í bæjarstjórn. Lítið var þó að gert enda var þetta tími stóratburða í mannkynssögunni. Síðari heimsstyrjöldin var skollin á.

Áhugamenn um skógrækt létu þó ekki deigan síga. Vorið 1941 var haldin kvöldvaka í útvarpinu þar sem fjallað var um hugmyndina um friðland við Elliðavatn, þar sem Heiðmörk er nú. Nafnið Heiðmörk lagði Sigurður Nordal til í erindi sínu á þessu útvarpskvöldi:

„Heiðmörk: hið bjarta skóglendi, – er heiti, sem vel mun fara þessu friðsæla landi með tæru lofti og litum.“ **

Um svipað leiti – á sumardaginn fyrsta – gaf Skógræktarfélag Íslands út kynningarbæklinginn Friðland Reykvíkinga ofan Elliðavatns. Bæklingurinn hafði þegar verið prentaður þegar Sigurður lagði til nafnið Heiðmörk, en svo mjög hrifust menn af því að það var þrykkt á forsíðuna í rauðu letri. Í bæklingnum var bréf félagsins til bæjarstjórnar frá árinu 1938, sem og ávarp til Reykvíkinga. Það hófst á orðunum „Friðun Elliðavatns, Hólmshrauns (…) er mál, sem alla Reykvíkinga varðar.“ Frumkvöðlarnir vonuðust til að þetta nýja svæði yrði „friðland og skemmtistaður, Reykvíkingum til andlegrar og líkamlegrar hressingar“. ***

Til að ýta enn á eftir málinu, efndi Skógræktarfélagið til fjársöfnunar meðal almennings, til kaupa á girðingarefni. Vegna styrjaldarinnar var voru skortur á margskonar efni og því talið ráðlegt að byrja í tæka tíð. Fjársöfnunin gekk vel og árið 1944 afhenti félagið bæjaryfirvöldum girðingarefni, svo hægt væri að friða Heiðmörk og girða hana af fyrir búfénaði. Í mars 1947 samþykkti bæjarstjórn Reykjavíkur loks að kaupa landið og friða það. Ári síðar var Heiðmörk girt af og þegar því var lokið, 16. desember 1948, var svæðið smalað og hliðum lokað. Fyrstu trjáplönturnar voru svo gróðursettar í Undanfara árið 1949.

Skógræktarfélag Reykjavíkur og bæjarstjórn Reykjavíkur gerðu með sér samning um „friðun og ræktun Heiðmerkur“ vorið 1950. Þar var félaginu falin öll umsjón og framkvæmdir í Heiðmörk og kveðið á um að Heiðmörk skuli „opin öllum almenningi og öllum frjálst að dvelja þar, gegn því að þeir hlíti þeim reglum, sem settar verða um umgengni og umferð.“

25. júní 1950 var Heiðmörk vígð við hátíðlega athöfn. Að sögn Morgunblaðsins voru á bilinu 2.500 til 3.000 manns við athöfnina. Formaður Skógræktarfélag Reykjavíkur, Guðmundur Marteinsson, bauð gesti velkomna; Þjóðkórinn undir stjórn Páls Ísólfssonar söng „Ég vil elska mitt land“ ásamt viðstöddum; og ýmis fyrirmenni héldu ræður.

Hákon Bjarnason skógræktarstjóri sagði gott til þess að vita að Reykvíkingar geti sótt sér góða viðu í Heiðmörk eftir 100-200 ár. Hann lét í ljósi þrjár óskir til handa Heiðmörk.

„Fyrsta óskin er, að Reykvíkingar um alla framtíð megi sækja hingað frið í hjarta og hvíld á sál og líkama. Önnur er, að hjer læri þeir að fara mjúkum höndum um móðurmoldina, svo að hún geti borið þeim fögur og hávaxin trje, er skýli og hlífi niðjum þeirra í stormum framtíðarinnar, og þriðja óskin er að starf og önn Reykvíkinga hjer í Heiðmörk megi verða öllum öðrum Íslendingum fagurt fordæmi.“

„Hingað geta menn sótt heilbrigði og frið, auðgað anda sinn við dýrð og dásemdir náttúrunnar“ sagði Gunnar Thoroddsen, borgarstjóri Reykjavíkur, í ræðu sinni. Og Sigurður Nordal prófessor hafði væntingar sem jafnvel gætu talist enn rómantískari. Sigurður vitnaði í norskan kunningja sinn, sem hafði ferðast um Suðurland og litist vel á það sem ræktarland. Norðmaðurinn vorkenndi hins vegar æskufólki landsins og velti fyrir sér hvernig það væri að því að trúlofast á slíku sléttlendi, „þar sem enginn skógur er og næturnar þar að auki svona bjartar, einmitt á vorin, þegar æskan er hneigðust til ásta.“ Eftir þessa upprifjun beindi Sigurður orðum sínum að fundarmönnum og spurði

„Getur það ekki hlýað ykkur, sem komið hingað til þess að setja niður trjáplöntur, dálítið um hjartarætur að hugsa til þess, að síðar meir eigi þessir reitir eftir að skýla ungum elskendum fyrir forvitnum augum og nærgöngulli athugun umhverfisins og leyfa þeim að finna friðland í langdeginu, sem ekki er kostur á í Reykjavík?“

Á þessum tíma var svæðið sem nú heitir Heiðmörk víða illa farið vegna beitar og uppblástur. Fyrr á öldum hafði verið þar skógur og talsverð kolavinnsla. Birkiskógurinn hafði mjög látið á sjá en þó voru þarna einu skógarleifarnar sem eitthvað kvað að í nágrenni höfuðborgarinnar.

Séð yfir Heiðmörk og Rauðhóla árið 1966.

Páll Líndal, sem fjallaði um Heiðmörk í Árbók Ferðafélags Íslands 1985, starfaði fyrir Reykjavíkurborg þegar verið var að friða Heiðmörk og hefja skógrækt þar.

„Þegar landsvarnarstarfið var að hefjast í Heiðmörk, var þar víða ófagurt um að litast. (…) blöstu víða við ógeðfelld moldarbörð, blómplöntur voru fáar, móar nagaðir niður í rót og auk þess uppblásnir, birkið stýft og aflagað vegna ágangs sauðfjár.“ ****

Árangurinn af friðun Heiðmerkur og starfi skógræktarmanna lét ekki bíða lengi eftir sér, eins og lesa má í Þjóðviljanum, 11. maí 1958.

„Um aldaraðir hefur þetta land verið þrautbeitt, skógurinn auk þess rifinn og höggvinn, enda var svo komið fyrir tíu árum [1948] að þar fyrirfannst ekki birkitré er gæti borið slíkt nafn, ekkert var þar eftir nema lágvaxið kjarr og runnar; sumstaðar aðeins teinungar í grasi. Uppblásturinn sem ætíð fylgir í kjölfar ofbeitingarinnar og rányrkjunnnar hafði sorfið stórar geilur í svörðinn. Hvarvetna um mörkina voru gróðurlaus flög og gapandi rofbörð. Eftir níu ára friðun er þetta gerbreytt.“

Landnemar, sjálfboðaliðar og ungmenni

Félagar í Skógræktarfélagi Reykjavíkur voru um fjórtán hundruð talsins árið 1950, þegar Heiðmörk var vígð. Félagið beitti sér fyrir Skógræktardögum þar sem hundruð manna tóku þátt í gróðursetningum. Til að virkja sem flesta var ákveðið að úthluta landnemaspildum í Heiðmörk til félaga og samtaka sem vildu taka að sér svæði í Heiðmörk. Þannig myndi margt fólk taka þátt í uppgræðslustarfinu og um leið læra handtökin við skógrækt.

Strax fyrsta árið var svokölluðum landnemaspildum úthlutað til 29 félaga og samtaka – til að mynda starfsmannafélaga, stéttarfélaga, átthagafélaga og stjórnmálasamtaka. Þeim hefur fjölgað síðan þá og árið 2020 voru 149 landnemaspildur í Heiðmörk.


Úr fyrstu ferð Akóges í Heiðmörk, 1950.

Eftir að Heiðmörk var vígð virðist hafa verið talsverður straumur fólks þangað jafnvel þótt ekki væri einfalt að komast þangað úr borginni. Sumarið 1950 stóð Ferðaskrifstofa ríkisins fyrir ferðum frá Reykjavík í Heiðmörk alla virka daga auk þess sem félög sem höfðu fengið úthlutað landnemaspildum skipulögðu þangað skógræktarferðir. Tvær slíkar auglýsingar voru birtar í Morgunblaðinu 15. júní 1950.

„Kvenrjettindafjelag Íslands. Farið verður í Heiðmörk í kvöld ef ekki verður rigning, annars annað kvöld. Lagt upp frá Ferðaskrifstofunni kl. 7 1/2.“

„Verslunarmannafjelag Reykjavíkur fer að Heiðmörk í kvöld kl. 7 í skógræktarför í land sitt þar. Þeir fjelagar, sem treysta sjer til þátttöku og hafa hug á að græða landið, mæti í skrifstofu fjelagsins kl. 7 í kvöld, en mönnum er sjeð fyrir farkosti þangað upp eftir.“

Uppgræðsla og skógrækt hefur þannig að miklu leyti verið drifin áfram af sjálfboðaliðum. Börn úr Skólagörðum Reykjavíkur og unglingar úr Vinnuskólanum hafa einnig lagt hönd á plóg. Strax vorið 1950 varð það fyrsta verk reykvískra barna sem tóku þátt í skólagörðunum að gróðursetja trjáplöntur í Heiðmörk. Enda var það „eitt af markmiðum skólagarðastarfseminna að vekja áhuga og kenna unglingum grundvallaratriði skógræktar“, sagði E.B. Malmquist, ræktunarráðunautur, í viðtali við Morgunblaðið í maí 1950.

Skólabörn úr Austurbæjarskóla í Heiðmörk 1976.

Nokkrum árum síðar, 1955, hófst reglubundið samstarf Vinnuskóla Reykjavíkur og Skógræktarfélags Reykjavíkur. Til að byrja með voru það aðeins stúlkur sem störfuðu við gróðursetninguna og voru þær 20-50 talsins, á aldrinum 14-15 ára. Afköstin voru umtalsverð. Árið 1956 gróðursettu stúlkurnar um þriðjung af þeim 100 þúsund trjáplöntum sem setta voru niður í Heiðmörk. Kynjaskiptingin lagðist þó fljótlega af og þeim sem unnu á vegum Vinnuskólans í Heiðmörk fjölgaði í um 200 til 250 á sjöunda á áttunda áratugnum.

Hin síðari ár hafa ungmenni sinnt gróðursetningum, grisjun, uppkvistun og stígagerð. Síðustu ár hefur Vinnuskólinn ekki starfað í Heiðmörk. Aftur á móti hafa 15-20 ungmenni á vegum Landsvirkjunar starfað þar yfir sumartímann. Sumarstarfsmenn Landsvirkjunar hafa einnig komið að öðrum verkefnum Skógræktarfélagsins, svo sem gróðursetningu og uppbyggingu í Esjuhlíðum.

Skógræktarstöðin í Fossvogi

Ein helsta hindrunin í vegi skógræktar á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar var skortur á trjáplöntum. Frumkvöðlar í skógrækt lögðu mikla áherslu á að vernda þær skógarleifar sem eftir væru, svo hægt yrði að nota fræ úr innlendum plöntum. Samhliða því hófst leit að trjátegundum sem gætu vaxið og dafnað hér á landi.

Í fyrstu var reynt að flytja hingað ungar trjáplöntur, meðal annars frá Jótlandi. Það gaf þó afar misjafna raun enda mikill munur á loftslagi, jarðveg og veðurfari. Betur gafst að ala plöntur upp af fræi, líkt og gert var í gróðrarstöðinni við Rauðavatn. Til að hægt yrði að hefja skógrækt sem eitthvað kvæði að, þurfti að koma upp betri aðstöðu til að framleiða trjáplöntur.

Árið 1932 var Fossvogsstöðin stofnuð, á landi sem bæjarstjórn Reykjavíkur afhenti Skógræktarfélaginu. Landið var girt af, ræst og byrjað að ala upp trjáplöntur. Þá var og gróðursett skjólbelti en hluti þess myndar skóg þann sem er á svæðinu í dag.

Plöntuframleiðsla komst þó ekki á fullan skrið fyrr en eftir heimsstyrjöldina síðari. Peningar voru af skornum skammti, kreppa og síðar heimsstyrjöld og erfitt að útvega fræ. Það var fyrst 1945 sem verulegt magn fékkst af trjáfræi frá Alaska, af tegundum og kvæmum sem hæfa íslenskri veðráttu. Næstu ár var mikið framleitt af trjáplöntum í Fossvogi enda stórt verkefni að hefjast í Heiðmörk. Meðal tegunda voru birki, sitkagreni, rauðgreni, stafafura, hlynur, reynir, víðir og rifs. Árið 1950 voru 67 þúsund plöntur afhentar úr stöðinni og 157 þúsund árið 1952. Um 60 mismunandi tegundir voru þá ræktaðar í Fossvogsstöðinni – margar í tilraunaskyni, til að kanna hvaða tegundir þrifust best við íslenskar aðstæður.

Skógræktarstöðin í Fossvogi var áratugum saman lykilþáttur í starfsemi Skógræktarfélags Reykjavíkur. Bróðurpartinn af þeim plöntum sem voru ræktaðar í Fossvogsstöðinni, keypti Reykjavíkurborg til gróðursetningar í Heiðmörk, Öskjuhlíð, við Rauðavatn og á Austurheiðum. Auk þess er líklegt að stór hluti af garðatrjám Reykvíkinga og annarra íbúa suðvesturhornsins, sé ættaður úr Fossvogsstöðinni.

Í lok tíunda áratugarins var rekstur Skógræktarfélags Reykjavíkur og skógræktarstöðvarinnar í Fossvogi aðskilinn. Stöðin var sameinuð gróðurstöðinni Barra árið 1998 og landið í Fossvogi loks selt Reykjavíkurborg árið 2000. Hluti söluverðsins var síðar nýttur til að kaupa jörðina Múlastaði í Flókadal.

Stækkun Heiðmerkur, skógrækt og náttúra

Friðlandið sem skógræktarfólk girti af í Heiðmörk árið 1948, var um 1350 hektarar. Það samanstóð af landi Elliðavatnsbæjar og spildum úr landi Hólms og Vatnsenda. Síðan þá hafa önnur svæði bæst við, svo sem Vífilsstaðahlíð árið 1957 og um 220 hektara afréttarland Garða. Bændur töldu sig eiga upprekstrarrétt á afréttarlandinu og lögðust gegn því að það yrði friðlýst. Þar sem ekki náðist samkomulag fór svo að Alþingi samþykkti heimild til eignarnáms árið 1953. Elliðavatnsbærinn sjálfur og nágrenni hans varð svo hluti af Heiðmörk árið 1963. Þá var lagt niður hæli fyrir þroskaskerta, sem þar hafði verið í um tvo áratugi á vegum Reykjavíkurborgar, ásamt búrekstri. Árið 2013 bættust svo 200 hektarar við Heiðmörk úr landi Hólms, norðan við Rauðhóla. Heiðmörk er nú um 3.200 hektarar að stærð. Um hálf milljón leggur leið sína í Heiðmörk á ári hverju.

Áætla má að sex til sjö milljón tré og runnar hafi verið gróðursett í Heiðmörk. Talið er að tegundirnar séu um 100 (+/- 20). Sum þessara trjáa hafa náð að framleiða fræ. Auk þess hefur lengi verið villt birkikjarr í Heiðmörk, þótt það hafi verið nokkuð illa farið áður en svæðið var friðað 1949.

Myndin er líklega tekin í Vífilsstaðahlíð, um 1965-67. Stafafuran var gróðursett árið 1958.

Samkvæmt útreikningum Gústafs Jarls Viðarssonar, skógræðings hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur, er nú náttúrulegt birki á rétt ríflega 1.000 hekturum í Heiðmörk. Barrskógar eru á um 400 hekturum í Heiðmörk og er meirihluti trjánna hærri en fimm metrar. Blandskógar eru á meira en 400 hekturum til viðbótar og yngri skógar á 100 hekturum. Annað landvæði til að mynda vötn, gróðursnauðir melar, örfoka land, hraun, graslendi og lúpínubreiður.

Lúpínu var sáð í Rauðavatnsstöðinni strax eftir aldamót í tilraunaskyni. Í Heiðmörk var hún fyrst gróðursett árið 1959 og hefur hún gert mikið gagn við uppgræðslu svæðisins. Næstu ár og áratugi breiddust lúpínubreiður út á gróðursnauðum melum í Heiðmörk og á lágheiðunum norður af Heiðmörk. Þar sem land hefur gróið upp, hefur lúpínan hörfað á síðustu áratugum, líkt og fræðast má um í grein Daða Björnssonar í Skógræktarritinu, 2011. Samkvæmt útreikningum Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem byggja á loftmyndum af Heiðmörk árin 2016 og 2017, var lúpína á um 430 hekturum.

Sumar trjátegundir hafa reynst betur en aðrar. Síðustu ár hefur mest verið gróðursett af stafafuru, birki og sitkagreni. Fjöldi annarra tegunda hefur verið gróðursettur, svo sem blágreni, gulvíðir, alaskaösp, reyniviður, hrymur, bergfura og gráelri. Þá leitast Skógræktarfélag Reykjavíkur við að auka enn fjölbreytileika gróðurs í Heiðmörk og eru reglulega gerðar tilraunir með ræktun nýrra trjátegunda og runna.***** Fjallað er um fjölbreytt gróðurfar Heiðmerkur, dýra- og fuglalíf og jarðfræði hér.

Í Heiðmörk er líka að finna merkar mannvistaleifar. Þar eru til að mynda gamlar fjárborgir og minjar tengdar búskap, svo sem í Maríuhellum. Elliðavatnsbærinn á sér einnig merka sögu. Áhugaverðustu minjarnar eru þó líklega í Þingnesi, sem gengur út í Elliðavatn. Þar eru leifar að minnsta kosti 18 fornra mannvirkja frá fyrstu áratugum Íslandsbyggðar. Hugsanlega er þarna forn þingstaður. Nánar er fjallað um Þingnes hér.

Önnur svæði í umsjón Skógræktarfélags Reykjavíkur

Þótt Heiðmörk hafi lengi verið þungamiðjan í starfi Skógræktarfélags Reykjavíkur, hefur félagið einnig umsjón með fjórum öðrum svæðum.

Frá árinu 2000 hefur Skógræktarfélag Reykjavíkur haft umsjón með Esjuhlíðum. Þar hafði Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélag Kjalarness og fleiri höfðu þá um árabil ræktað skóg á jörðunum Mógilsá og Kollafirði. Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur hirt um þennan skóg, plantað í nýja reiti og unnið að uppbyggingu stígakerfis og aðstöðu til útivistar. Fimm landnemahópum hefur verið úthlutað spildum í Esjuhlíðum. Stærstur hluti gamla skógarins við rætur Esju tilheyrir Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá og er hann að mestu undanskilinn leigusamningi við Skógræktarfélag Reykjavíkur. Félagið hefur átt í góðu samstarfi á svæðinu við Skógræktarfélag Kjarlarness. Nánar er fjallað um Esjuhlíðar hér.

Sjálfboðaliðar við gerð hjólaleiða í Esjuhlíðum 2019. Mynd: Jón Haukur Steingrímsson.

Á Reynivöllum í Kjós hefur Skógræktarfélag Reykjavíkur umsjón með gömlum trjáreitum auk þess sem nokkuð er um nýgróðursetningar á svæðinu.

Í Fellsmörk í Mýrdalshreppi stunda 37 landnemar skógrækt á spildum sem þeir hafa fengið úthlutað frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Félagið leigði upphaflega um 300 hektarar svæði og hófst gróðursetning árið 1990. Árið 2018 keypti Skógræktarfélag Reykjavíkur svo jarðirnar Fell og Keldudal af íslenska ríkinu – samtals 982 hektara sem kallaðir eru Fellsmörk. Félagið hafði lýst áhuga á kaupunum mörgum árum fyrr. Á aðalfundi Skógræktarfélagsins 2010 var til að mynda kynnt hugmynd að gera Fellsmörk að einhvers konar þjóðgarði sunnan jökla, líkt og Þórsmörk er norðan jöklanna. Nánar er fjallað um Fellsmörk hér.

Múlastaðir í Flókadal er 650 hektara jörð sem Skógræktarfélag Reykjavíkur festi kaup á árið 2014. Jörðin er fyrsta eignarland félagsins og er nú unnið að því að rækta skóg á henni allri. Ríflega 200 þúsund trjáplöntur hafa þegar verið gróðursettar, á um 94 hektara svæði. Íbúðarhúsið að Múlastöðum hefur verið gert upp og útihúsum breytt til að skapa góða aðstöðu fyrir starfsemi félagsins og nýtingu jarðarinnar til skógræktar og skyldrar starfsemi. Nánar er fjallað um Múlastaði hér.

Starfsemin í dag

Skógrækt er samstarfsverkefni kynslóðanna. Fólk sem í dag nýtur skjólsællar og fallegrar náttúru í Heiðmörk, er að uppskera ávexti starfs sem hófst fyrir mörgum áratugum. Kyrkingslegt birkikjarr hefur rétt úr sér og dreifst yfir gróðursnautt hraun, rofabörð gróðið upp og myndarleg tré vaxið upp þar sem áður var örfoka melur.

Börn á gönguskíðum í Heiðmörk. Mynd: Ullur

Í Heiðmörk er nú gestkvæmt allt árið. Skógræktarfélag Reykjavíkur á í samstarfi við fjölbreytta hópa sem nýta útivistarsvæðið – allt frá gönguskíðafólki, hestamönnum og hjólafólki til hundaeigenda, myndlistarmanna og ásatrúarfólks. Félagið stendur einnig fyrir árvissum viðburðum tengdum skógarmenningu og ber þar hæst Jólamarkaðinn á Elliðavatni og Skógarleikana.

Auk þess að sjá um og rækta skóg í Heiðmörk, Esjuhlíðum, á Fellsmörk, Reynivöllum og Múlastöðum, sinnir Skógræktarfélagið ýmsu fræðslustarfi og verkefnum tengdum skógrækt. Eitt þeirra er ræktun Loftslagsskóga í nágrenni Reykjavíkur. Samningur um það verkefni var gerður árið 2020 og hófust fyrstu gróðursetningar þá um vorið.

Félögum í Skógræktarfélagi hefur fjölgað talsvert síðustu ár og eru nú nær tvö þúsund talsins. Það er sérstakt gleðiefni að stór hluti nýrra félaga er ungt fólk. Áhugi á skógrækt virðist fara vaxandi, hvort sem það er vegna áhuga á útivist, ástar á náttúrunni eða þess að í aukinni skógrækt felast vissir möguleikar til að spora gegn hamfarahlýnun.

*Páll Líndal, Árbók Ferðafélags Íslands 1985, bls. 9.
** Tilvitnun eftir: Páll Líndal, bls. 16.
***Heiðmörk. Friðland Reykvíkinga ofan Elliðavatns, Reykjavík 1941.
**** Páll Líndal, bls. 18.
**** Árið 2013 voru til að mynda gróðursettar eftirfarandi tegundir Alaskaepli, alaskayllir, alpareynir, askur, baunatré, bergreynir, bláber, blárifs, blóðheggur, blæölur, bogsasýrena, broddhlynur, brómber, dúntoppur, dögglingsþyrnir, epli, fagursýrena, fjallagullregn, fjallarós, fjallaþöll, garðahlynur, garðakvistill, gljáhlynur, glæsitoppur, gojiber, gráelri, gráreynir, gullrifs, gultoppur, haustreynir, heggur, hengibjörk x ilmbjörk, hélurifs, hindber, hlíðaramall, ilmreynir, ígulrós, jarðaber, kirsuber, klukkutoppur, knappareynir, kóreulífviður, lindifura, logalauf, marþöll, pera, perlureynir, plóma, rauðblaðarós, rifs, roðakirsi, rósareynir, rúbínreynir, rússaþyrnir, silfurreynir, skrautreynir, snjóber, sólber, spörvareynir, sumareik, surtartoppur, svartaskur, sýrena, tayber, úlfareynir, úlfarunni, valhallarkvistur og virginíuheggur.