Markmið Skógræktarfélags Reykjavíkur

Félagið heitir Skógræktarfélag Reykjavíkur og er héraðsskógræktarfélag innan vébanda Skógræktarfélags Íslands.
Tilgangur félagsins er að vinna að skógrækt, trjárækt og landbótum fyrir almenning í Reykjavík og víðar. Vill félagið með því stuðla að bættu samspili og lífsskilyrðum manna, dýra og alls gróðurs.

Félagið vill ná tilgangi sínum með því:

  • Að leggja stund á skógrækt og styðja við skógrækt einstaklinga, félaga og fyrirtækja.
  • Að veita fræðslu um skógrækt og trjárækt og gildi skóga í náttúrunni.
  • Að stuðla að rannsóknum á öllum þáttum skógræktar og á runna- og trjátegundum.
  • Að starfa með Reykjavíkurborg að ræktun á löndum borgarinnar.
  • Að hafa umsjón með skógræktar- og útivistarsvæðum.
  • Að útvega land til skógræktar fyrir félagsmenn.

Til þess að auka landgæði og auðvelda almenningi útivist mun félagið hvetja til þess að Reykjavíkurborg leggi stund á skógrækt og hefur lýst vilja sínum til frekari samstarfs við Reykjavíkurborg á því sviði. Einnig mun félagið leita til félaga og fyrirtækja um samstarf og stuðning við uppbyggingu útivistarsvæða fyrir almenning.

Skógræktarfélag Reykjavíkur vill annast skógaruppeldi í Reykjavík í samráði við fræðsluyfirvöld.  Komið verði á fót fræðslusetri á Elliðavatni sem lið í þessu verkefni, sem verði miðstöð útináms í sem flestum fögum við Grunnskóla Reykjavíkur.

Skógræktarfélag Reykjavíkur ætlar að efla tengsl sín við almenning í Reykjavík. Félagið hyggst í því sambandi m.a. skipuleggja vettvangsferðir í hverfi borgarinnar til þess að veita ráðgjöf um trjárækt. Það ætlar að koma á skipulegu samstarfi við önnur áhugamannafélög, samtök eldri borgara og æskulýðsfélög um starfsemi á þeim svæðum sem það sinnir fyrir Reykjavíkurborg.

Skógræktarfélag Reykjavíkur setur sér það markmið að gera eftirsóknarvert að vera í félaginu með því bjóða félagsmönnum upp á fjölbreytt starf þar sem flestir geti notið upplýsinga og fróðleiks um skógrækt. Það ætlar að efla samstarf við atvinnulífið í landinu og sýna fyrirtækjum fram á að skógrækt sé skynsamleg fjárfesting til framtíðar.

     Efling Skógræktar

Félagið vill líka efla skógrækt til borgarnytja en það hefur einmitt verið snar þáttur í starfi félagsins. Með skógrækt til borgarnytja er átt við trjárækt inni í borginni, til skjóls og yndisauka, bæði á opnum svæðum innan byggðar og á lóðum einstaklinga.

  Skógrækt á útmörk Reykjavíkur

Útivistarskógar Reykvíkinga hafa sannað gildi sitt. Borgin reið á vaðið á sínum tíma og Heiðmörk, sem brautryðjendur skógræktar sáu í hillingum framtíðarinnar er nú eitt af vinsælustu útivistarsvæðum landsins en þangað kemur árlega yfir hálf milljón gesta. Enn er mikið starf óunnið á Heiðmörk. Þar þarf að efla og bæta útivistarmöguleika allt árið, sinna þarf skóginum og grisja en þess er víða þörf og þá þarf ekki síður að auka fjölbreytni tegunda svo skógurinn verði sá unaðsreitur sem hann hefur burði til þess að verða.

Skógræktarfélag Reykjavíkur vill annast alla skógrækt á útmörk Reykjavíkur. Það vill sjá um og hirða alla þá útivistarskóga borgarinnar sem liggja utan þéttbýlis. Þannig verði starf þess á Heiðmörk eflt, og skipulega unnið að því að bæta aðstöðu þar, einkanlega fyrir börn og fjölskyldufólk.

  Skógaruppeldi

Skógræktarfélag Reykjavíkur vill taka að sér skógaruppeldi í samráði við fræðsluyfirvöld. Með skógaruppeldi er átt við að börn tileinki sér þá lífsýn skógræktarmanna að trjá- og skógrækt sé sjálfsagður hluti í umgengni okkar við landið.

Á nýjum tímum hefur runnið upp fyrir Vesturlandabúum að siðfræðireglur gagnvart landinu og náttúrunni séu fullt eins mikilvægar og þær reglur sem við höfum innrætt börnum okkar um siðfræði í mannlegum samskiptum. Fræðslu- og skógræktarferðir skólanna í Reykjavík í Heiðmörk hafa lengi tíðkast og hafa starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur annast leiðsögn og séð um að útvega plöntur og verkfæri.

Nú hefur félagið hafið endurbyggingu gamla steinhússins á Elliðavatni, sem áformað er að gera að Fræðslusetri. Setrið mun nýtast sem miðstöð fræðslu í náttúrufræðum og umhverfisvernd. Í tengslum við Fræðslusetur ætti að skipuleggja námskeið í skógrækt, sögu og náttúrufræði, fyrir grunnskólabörn Reykjavíkur.