Skógræktarfélag Reykjavíkur er sjálfstætt starfandi áhugamannafélag um skógrækt í Reykjavík og eitt af tæplega 60 skógræktarfélögum innan vébanda Skógræktarfélags Íslands. Hlutverk félagsins er að vinna að skógrækt, trjárækt og landbótum í Reykjavík og víðar.

Félagar í Skógræktarfélagi Reykjavíkur eru tæplega 2.000 og fastir starfsmenn þrír. Að auki starfar fjöldi fólks tímabundið fyrir félagið á sumrin og í tengslum við árlegan jólamarkað á Elliðavatni.

Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur um áratuga skeið átt í góðu samstarfi við Reykjavíkurborg um ræktun í borgarlandinu. Einnig hefur félagið lagt ríka áherslu á að virkja einstaklinga, fyrirtæki og félagasamtök til þátttöku í skógrækt og landbótum.

Fræðsla um skóg- og trjárækt og gildi skóga fyrir umhverfi og samfélag er jafnframt mikilvægur þáttur í starfi félagsins. Þeim þætti sinnir félagið meðal annars með námskeiðahaldi, útgáfu og móttöku hópa fólks úr ýmsum áttum, allt frá leikskólabörnum til ellilífeyrisþega.

Aðalverkefni Skógræktarfélags Reykjavíkur er umsjón Heiðmerkur, eins stærsta og vinsælasta útivistarsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Í mörg horn er að líta í Heiðmörk en auk hefðbundinna skógræktarstarfa sinnir félagið þar uppbyggingu og viðhaldi á aðstöðu til dæmis með gerð stíga og opinna svæða til leikja og skemmtunar.

Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur einnig umsjón með Esjuhlíðum, öðru vinsælu útivistarsvæði borgarbúa. Þá sinnir félagið skógrækt á Reynivöllum í Kjós, á Múlastöðum í Flókadal í Borgarbyggð og í Fellsmörk í Mýrdal.

Skrifstofur félagsins eru á Elliðavatni í Heiðmörk.

ellidavatn130808net