Múlastaðir í Flókadal er 650 hektara jörð sem Skógræktarfélag Reykjavíkur festi kaup á árið 2014. Jörðin er fyrsta eignarland félagsins og er nú unnið að því að rækta skóg á henni allri. Ríflega 260 þúsund trjáplöntur hafa þegar verið gróðursettar, á um 113 hektara svæði.

Íbúðarhúsið að Múlastöðum er líklega frá því um 1960. Ástand þess var bágborið þegar Skógræktarfélag Reykjavíkur keypti jörðina en það hefur nú verið gert upp að utan sem innan. Viður úr Heiðmörk var notaður við uppgerð hússins meðal annars í klæðningu utanhúss og parkett innandyra. Þá er þar einnig að finna borð úr lerki, rugguhest og leikföng unnin úr efniviði skógarins. Heiður að hönnun hússins eiga Júlía Andersen innanhúsarkitekt og Sara Riel myndlistarmaður en myndskreyting úr safni hennar prýðir einmitt húsið. Þá hafa fjölmargir starfsmenn félagsins og verktakar unnið hörðum höndum að endurbótum á því. Húsið hefur verið leigt Kennarasambandi Íslands sumrin 2019 og 2020.

Á Múlastöðum var einnig skemma og fjós sem nú hefur verið breytt í skemmu og geymslu. Í gamla mjólkurhúsinu er verið að koma upp kaffistofu fyrir starfsmenn meðan þeir sinna útistörfum.

Með lagfæringum á húsakynnum að Múlastöðum er nú komin upp mjög góð aðstaða fyrir starfsemi félagsins og nýtingu jarðarinnar til skógræktar og skyldrar starfsemi.

Smellið hér til að hlaða niður bæklingi (PDF; 2,5MB)