„(…) þingstaðr þessi er í mesta lagi fornlegr, og þegar hann er borinn saman við aðra þingstaði, sem eg hefi rannsakað, er það ljóst, að hann er frá þjóðveldistímanum.“

Sigurður Vigfússon fornfræðingur, 1893.

Á Þingnesi, sem gengur út í Elliðavatn, eru leifar að minnsta kosti 18 fornra mannvirkja frá fyrstu árum Íslandsbyggðar. Margt bendir til að minjarnar séu „með merkustu minjum landsins“, eins og Guðmundur Ólafsson fornleifafræðingur segir í umfjöllun sinni um rannsóknir á Þingnesi.*

Þingnes. Loftmynd af uppgraftarsvæðinu frá 1984. Mynd úr skýrslu Þjóðminjasafns Íslands.

Í Íslendingabók og Landnámu segir að Þorsteinn Ingólfsson, sonur Ingólfs Arnarsonar, hafi sett þing á Kjalarnesi, áður en Alþingi var stofnað á Þingvöllum, árið 930. Vaxandi áhugi á sögu Íslands og íslenskum fornbókmenntum um miðja 19. öld, varð til þess að farið var að leita að þeim stöðum sem þar er lýst. Þeirra á meðal Kjalarnesþingi.

Engar minjar hafa fundist um fornt þing á Kjalarnesi. En árið 1841 hélt Jónas Hallgrímsson upp í rannsóknarleiðangur að Þingnesi, eftir að honum barst ábending um minjar þar. Rannsóknarleiðangur hans fann þar fjölda rústa í þyrpingu og taldi Jónas að Kjalarnesþing hafi á einhverjum tíma verið haldið á Þingnesi. Guðmundur Ólafsson fornleifafræðingur segir að sennilega sé þetta upphaf fræðilegra rannsókna á fornleifum hér á landi.

Næstu áratugi voru fjölmargar rannsóknir til viðbótar gerðar á staðnum, bæði af íslenskum og erlendum fornfræðingum. Þeir sem könnuðu staðinn voru sammála um að hann væri líklega forn þingstaður.

Á árunum 1981 til 1986 stóð Þjóðminjasafn Íslands að rannsókn á svæðinu. Þá kom meðal annars í ljós að minjarnar eru fjölbreyttari en áður var talið. Í upphafi virðist hafa verið þarna föst búseta en síðar tímabundin – annað hvort þing á sumrum eða seljabúskapur.

Yfirlitskort af minjasvæðinu á Þingnesi, samkvæmt uppmælingum 1981 – 1984 og 1989. (Guðmundur Ólafsson, Paul C. Buckland).

Áhugaverðustu mannvirkin eru líklega tveir hringir á miðju svæðinu. Ytri hringurinn er grjóthleðsla, um einn metri á þykkt og átján metrar í þvermál. Innan í henni er svo annar hringur, um átta metrar í þvermál og hlaðinn úr torfi sem virðist hafa verið rist um aldamótin 900. Innan veggsins er svo hellulögn. Grjóthleðslan er yngri og er talin frá 11. eða 12. öld.

Ekki er ljóst hvaða hlutverki þetta mannvirki gegndi. Guðmundur Ólafsson nefnir að það hafi mögulega verið lögrétta eða fjárborg. Síðari möguleikinn sé þó ólíklegur þar sem byggingin er á miðju svæðinu og enginn inngangur hefur fundist í hringinn. Þá hefur það þótt mikilvægt einkenni á þingstað, að sögn Guðmundar, að þar væri hringlaga mannvirki – dómhringur eða lögrétta. Ekki hefur tekist að skera úr um hvort þingstaður hafi verið á Þingnesi, þótt Guðmundur segi að „leiða megi að því nokkrum líkum.“


*Umfjöllun þessi byggir rannsóknarsögu sem Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur og starfsmaður Þjóðminjasafns Íslands, skrifaði árið 2004: Þingnes við Elliðavatn og Kjalarnesþing. Rannsóknasaga 1841 – 2003. Hægt er að nálgast hana hér.

Myndir á síðunni eru fengnar úr skýrslunni, með góðfúslegu leyfi höfundar.