Yfirlit
Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur í gegnum áratugina útdeilt yfir hundrað landnemaspilda til félagasamtaka, fyrirtækja og einstaklinga. Markmið landnemastarfsins er að virkja dug og frumkvæði landnema til skógræktar. Fyrstu landnemaspildunum var úthlutað á Elliðavatnsheiði þegar Heiðmörk var vígð árið 1950. Meðal fyrstu landnema voru Glímufélagið Ármann, Garðyrkjufélag Íslands, Ferðafélag Íslands og Berklavörn. Margir landnema hafa haldið tryggð við spildur sínar og komið árlega og gróðursett í reitinn. Nú sinna landnemar á þessum stað frekar umhirðu og grisjun í reitum sínum enda skógurinn vaxið mikið. Eftir að Vífilstaðahlíð varð hluti af Heiðmörk árið 1958 var komið á fót sérstökum styrktar- og minningarreitum þar sem fyrirtæki eða einstaklingar styrktu Skógræktarfélagið um ákveðna upphæð og hún notuð til þess að gróðursetja í viðkomandi reit. Sem dæmi um þetta eru reitir Almennra trygginga, og Minningarlundur um Helga Tómasson lækni. Þessir reitir eru nú vaxnir háum trjám og er grisjun á þeim hafin.
Landnemar í Heiðmörk
Í Heiðmörk eru nú um 130 landnemaspildur og sækja sumir landnemanna spildur sínar heim einusinni á ári og sinna þeim. Fyrstu spildunum var útdeilt árið 1950 en árið 1990 kom önnur bylgja skógræktaráhuga í landinu og þá var einnig mörgum spildum úthlutað. Eins og gefur að skilja hafa margir landnemanna týnt tölunni en eftir þá standa þó trén sem gróðursett voru og eru þau mörg hver gróskuleg. Enn koma fyrirspurnir um landnemaspildur og reynir Skógræktarfélagið að sinna þeim eftir bestu getu.