Fræðslurjóður
Fræðslurjóðrin eru austan við Elliðavatnsbæinn. Í fræðslurjóðrunum fer fram náttúru- og umhverfiskennsla fyrir börn og unglinga.

 

Furulundur – Dropinn
Furulundur var gerður árið 2000 í tengslum við að Reykjavík var kjörin Menningarborg Evrópu. Þetta er fjölskyldulundur búinn leiktækjum, blakvelli og grillaðstöðu. Inn af Furulundi er Dropinn, áningarstaður með grilli, borðum og bekkjum.

 

Grenilundur
Grenilundur er fjölskyldurjóður frá 2005. Þar er grillaðstaða, bílastæði og leik- og klifurtæki. Grenilundur rúmar um 50 manns.

 

Helluvatn
Á áningarstaðnum við Helluvatn er grillaðstaða undir þaki.

 

Hjallaflatir
Hjallaflatir eru stærsti áningarstaður Heiðmerkur. Þar geta komið saman meira en 300 manns. Þar er fótboltavöllur og grillaðstaða.

 

Símamannalaut
Símamannalaut er afrakstur kraftmikils landnemastarfs. Félag íslenskra símamanna hóf gróðursetningu þar strax eftir friðun Heiðmerkur árið 1950. Í Símamannalaut er bílastæði, grill, borð og bekkir. Svæðið hentar vel fyrir hópa upp að 40 manns.

 

Vífilsstaðahlíð
Árið 1958 varð Vífilsstaðahlíð hluti af Heiðmörk eftir samninga milli Skógræktarfélags Reykjavíkur og stjórnar ríkisspítalanna. Þá var strax hafist handa við gróðursetningu þar. Í Vífilsstaðahlíð er einnig að finna trjásafn sem Skógræktarfélag Reykjavíkur byrjaði að gróðursetja árið 1990.

 

Vígsluflöt – Rariklundur
Heiðmörk var stofnuð formlega 25. júní 1950 á Vígsluflöt. Á vígsluhátíðinni gróðursetti þáverandi borgarstjóri Gunnar Thoroddsen sitkagreniplöntu sem í dag er myndarlegt tré. Á 50 ára afmæli Heiðmerkur gróðursetti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þáverandi borgarstjóri ilmreyni á Vígsluflöt. Á Vígsluflöt eru grill, borð og bekkir, og bílastæði. Svæðið getur rúmað um 70 – 100 manns.

 

Þjóðhátíðarlundur
Skógræktarfélag Reykjavíkur stofnaði Þjóðhátíðarlund árið 1974 til að minnast 1100 ára afmælisÍslandsbyggðar og jafnframt 75 ára afmælis skógræktar á Íslandi. Þjóðhátíðarlundur er í Löngubrekkum og skammt frá eru Hulduklettar. Í Þjóðhátíðarlundi er grill, borð og bekkir, bílastæði, leiktæki og fótboltavöllur. Svæðið hentar vel fyrir stærri hópa eða 70 – 100 manns.

 

Allir eru velkomnir í Heiðmörk, jafnt einstaklingar sem hópar til að njóta útiveru, í sátt við náttúruna og náungann.

 

furlundur

Í Furulundi á góðum degi.