Heiðmörk er stærsta útivistarsvæðið á höfuðborgarsvæðinu og eitt það vinsælasta. Á hverju ári sækir yfir hálf milljón gesta Heiðmörk heim og nýtur þar fjölbreyttrar útivistar og náttúru. Þar finna allir eitthvað við sitt hæfi, hvort sem þeir kjósa að fara um mörkina á hestbaki, reiðhjóli eða tveimur jafnfljótum. Í gegnum tíðina hafa ótal göngu- og reiðstígar verið lagðir um svæðið og glæsileg aðstaða byggð upp fyrir fjölskyldufólk og aðra sem vilja gera sér glaðan dag í skóginum. Heiðmörk er um 3.200 hektarar að stærð, þar af þekur skóglendi tæpan þriðjung en að auki er þar að finna áhugaverðar jarðmyndanir, viðkvæmt votlendi og lyngmóa. Dýralíf er jafnframt afar fjölbreytt á þessum slóðum og gildir þá einu hvort menn hafa áhuga á spendýrum, vatnalífverum eða fuglum himinsins. Áhugamenn um sögu og þjóðhætti þurfa heldur ekki að láta sér leiðast í Heiðmörk enda leynast þar víða mannvistarleifar, allt frá fyrstu tíð Íslandsbyggðar til okkar daga.
Sögu Heiðmerkur sem útivistarsvæðis, má rekja aftur til ársins 1947 þegar bæjarstjórn Reykjavíkur samþykkti að stofna friðland og skemmtigarð fyrir Reykvíkinga í Heiðmörk. Svæðið var vígt árið 1950 og sama ár hóf Skógræktarfélag Reykjavíkur skógrækt þar. Upphaflega var friðlandið stofnað úr landi Elliðavatnsbæjar og úr hluta af landi Hólms og Vatnsenda. Árið 1957 bættist við sá hluti Heiðmerkur sem nú er innan Garðabæjar en tilheyrði þá Vífilsstöðum og afrétti Garðatorfu. Skógræktarfélag Reykjavíkur fer enn með umsjón svæðisins í góðu samstarfi við Reykjavíkurborg, Orkuveitu Reykjavíkur og Garðabæ.