Fellsmork Í Fellsmörk í Mýrdalshreppi stunda 37 landnemar skógrækt á spildum sem þeir hafa fengið úthlutað frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur.

Árið 1989 leigði Skógræktarfélag Reykjavíkur jarðirnar Fell, Álftagróf og Keldudal í Mýrdalshreppiaf íslenska ríkinu. Svæðið var um 300 hektarar að stærð og nefnt Fellsmörk. Almenningi var boðið að fá 1 hektara spildur á svæðinu gegn því að rækta þar skóg. Fyrirkomulagið var þannig að landnemar fengu úthlutað landskika til plöntunar gegn gjaldi. Gegn því að annast skógrækt á svæðinu og greiða leigu hafa landnemar rétt til byggingar sumarbústaða á sínum skikum. Gróðursetning á svæðinu hófst árið 1990.

Árið 2018 keypti Skógræktarfélag Reykjavíkur svo jarðirnar Fell og Keldudal af íslenska ríkinu – samtals 982 hektara. Félagið hafði lýst áhuga á kaupunum mörgum árum fyrr. Á aðalfundi Skógræktarfélagsins 2010 var til að mynda kynnt hugmynd að gera Fellsmörk að einhvers konar þjóðgarði sunnan jökla, líkt og Þórsmörk er norðan jöklanna.

Félag Landnema í Fellsmörk er hagsmunafélag landnema á Fellsmörk og er tilgangur þess að gæta hagsmuna landnema i málum er snerta lönd þeirra og leigurétt og koma sameiginlega fram fyrir þeirra hönd.

Hér má nálgast heimasíðu Félags Landnema í Fellsmörk.