Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur haft umsjón með Esjuhlíðum frá árinu 2000 þegar félagið tók við jörðunum Mógilsá og Kollafirði. Jarðirnar tvær eru um 1.000 hektarar að stærð. Á svæðinu hafa verið lagðir stígir og vegir sem eru yfir 20 kílómetrar að lengd og bjóða upp á fjölbreytta útivist í fjölbreyttu umhverfi.

 

Hér að neðan má lesa hvernig forsvarsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur nálguðust verkefnið árið 2000.

Enn stendur Skógræktarfélag Reykjavíkur á tímamótum. Þótt það hafi hætt ræktun, uppeldi og sölu skógarplantna, eru verkefnin ærin. Næsta stórverkefni er ræktun og uppbygging útivistarsvæðisins í Esjuhlíðum en félagið tók við jörðunum Mógilsá og Kollafirði á þessu ári. Skógrækt ríkisins og fleiri hafa ræktað þar talsverðan skóg á liðnum árum og verður því ræktunarstarfi fram haldið á komandi árum. Unnið er að skipulagi svæðisins og miðar vel. Í framhaldinu verður hafist handa við skógrækt með svipuðu sniði og reynst hefur  svo vel í Heiðmörk. Jafnframt verður unnið að uppbyggingu stígakerfis og aðstöðu til útivistar. Esjuhlíðar eru þegar geysilega fjölsóttar og mikil þörf á frekari uppbyggingu og þjónustu við almenning. Skógræktarfélagið mun leita til einstaklinga og fyrirtækja um liðsinni í þessu nýjasta stórvirki félagsins. Það mun jafnframt leita samstarfs við borgaryfirvöld og félagasamtök.

Hlíðar Esju eru nú þegar vinsælt útivistarsvæði  og upp á Þverfellshorn liggur einn fjölfarnasti göngustígur landsins. Meginmarkmið með deiliskipulagi fyrir jarðirnar í heild er að styrkja svæðið sem alhliða útivistarsvæði með áherslu á göngufólk, ræktun og vernd náttúru- og söguminja. Sérstök áhersla er lögð á undirlendi jarðanna, þ.e.  neðan 200 m yfir sjávarmál en þar eru ræktunarskilyrði  best og gott aðgengi árið um kring. Landnýting þessa undirlendis verður fyrst og fremst tengd útivist og ræktun, auk verndunar menningarminja.

Unnið verður í samræmi við eftirfarandi undirmarkmið:

  • Að auka þjónustu við göngufólk og bæta aðstæður til gönguferða við hæfi sem flestra.
  • Að dreifa útivistarfólki meira um svæðið og nýta það betur.
  • Að vernda náttúru- og söguminjar.

Rúm 40 ár eru síðan skógrækt hófst í landi Mógilsár og hafa plöntur dafnað vel, einkum á seinustu árum. Þar hefur Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins aðsetur og sinnir fjölda tilraunareita. Skógræktarfélag Kjalarness var í hópi frumherjanna og vinnur enn að ræktun á svæðinu, síðast með styrk frá Skógarsjóðnum. Deiliskipulag var gert árið 2003 í samvinnu við Borgarskipulag Reykjavíkur og í framhaldi af því var gert skógræktarskipulag fyrir svæðið.

Gert er ráð fyrir að skógrækt verði á landnemaspildum, með svipuðu sniði og í Heiðmörk. Fyrirtæki, félög og einstaklingar geta fengið spildur til ræktunar. Spildurnar verða merktar landnemunum.