Síðastliðinn föstudag, þann 22. september, undirrituðu Skógræktarfélag Reykjavíkur og Íslenska gámafélagið viljayfirlýsingu um samstarf við skógrækt á um 25 hektara svæði á Esjumelum í landi Kollafjarðar. Verkefnið mun bera nafnið Endurvinnsluskógur og markmið þess verður vera að sýna á raunverulegan hátt fram á umhverfislegan ávinning endurvinnslu og pappa og pappír. Hraði skógræktarinnar mun stjórnast af magni pappa og pappírs sem berst til Íslenska gámafélagsins. Reiknað er með að plöntun taki á 3 til 5 ár.
Mynd að ofan: Þröst Ólafsson (t.h.), formann Skógræktarfélags Reykjavíkur, og Hauk Björnsson, forstjóra Íslenska gámafélagsins, takast í hendur eftir að hafa undirritað viljayfirlýsinguna.
Skógurinn verður hannaður með það fyrir augum að almenningur, fyrirtæki og stofnanir geti fræðst á skemmtilegan hátt um endurvinnslu og leiðir sem hægt er að fara til að minnka vistspor. Stígur um svæðið mun leiða gesti á milli fræðslurjóðra og gert verður ráð fyrir svæði fyrir fyrirlestra undir berum himni.
Skógurinn verður í eigu Skógræktarfélags Reykjavíkur og félagið mun hafa umsjón með gróðursetningu á svæðinu.
Endurvinnsluskógar hópurinn (f.v.): Gústaf Jarl Viðarsson, skógfræðingur hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur; Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur; Þröstur Ólafsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur; Haukur Björnsson, forstjóri Íslenska gámafélagsins; Birgir Kristjánsson, framkvæmdastjóri umhverfissviðs Íslenska gámafélagsins